Margir foreldrar velja að láta börnin sín sofa úti í vagni í daglúr enda er það gömul íslensk hefð. Eins og með margar gamlar íslenskar hefðir, þá komst hún á af ástæðu og líklega vegna slæmra svefnskilyrða fyrir börn á þeim tíma, enda voru hýbílin minni og fjölmennari. En í dag er yfirleitt annað uppi á teningnum en áfram velja foreldrar að börnin þeirra sofi úti. Foreldrar hafa val og eru yfirleitt að fylgja einhverri innri tilfinningu. Foreldrar eru alltaf að gera sitt besta og eru að velja svefnstað sem þau telja að hentar barninu þeirra best.
Það er ekkert sem segir að útisvefn sé slæmur og heldur ekki að útisvefn sé betri en innisvefn. En það eru nokkur mikilvæg atriri sem ég hvet foreldrar til að hafa í huga- þegar þau velja útisvefn í daglúr.
Loftflæði - það þarf að gæta vel að loftflæði í gegnum svefnrýmið, að byrgja ekki loftopið með teppi eða öðru, til að tryggja súrefnisríkt loft hjá barninu. Notið eingöngu viðurkenndar CE vottaðar vörur eins og flugnanet og regnplast með öndun.
Loftgæði - oft er mikil mengun vegna svifrykst eða koltvísýrings í umhverfinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisstofnun heldur úti vefsíðu um loftgæði á höfuðborgasvæðinu, ég hvet foreldrar til að fylgjast vel með og setja börn ekki út til svefns ef loftgæðin eru ekki litakóðuð græn. Nánar á www.loftgaedi.is
Kuldi - það er erfitt að svara hvaða hitastig foreldrar eiga að miða við. En við viljum ekki að börnum sé of heitt og ekki of kalt en það er mjög orkukrefjandi fyrir barnið að anda að sér köldu lofti. Fyrir nokkru síðan gáfu íslensk heilbrigðisyfirvöld út leiðbeiningar að börn ættu ekki að sofa úti í frosti. Ég hef enn ekki fundið neinar rannsóknir sem styðja útisvefn, hvort sem það er frost eða ekki. Sem barnahjúkrunarfræðingur þá reyni ég oft að setja mig í spor barnsins og líklega mundi ég ekki vilja sofa úti í frosti í tjaldi, þó að ég væri vel klædd.
Sól - forðastu að barnið sofi í vagni þar sem sólin skýn á vagninn, því hættan á ofhitnun er mikil þó að lofthitinn úti sé ekki mikill. Hafðu vagninn ávallt í skugga.
Dýr - notaðu flugnanet til að forðast að flugur og önnur dýr fari inn í vagninn, en kettir eiga það t.d. til að reyna að komast inn í vagna.
Öryggi - gættu að helstu öryggistþáttum eins og að vagninn sé ekki í brekku, ekki nálægt umferð, sé í augsýn og ekki hægt að stela barninu. Sérataklega mikilvægt er að farn sofi í belti sem er fast í botn vagnsins.
Hlustunartæki eða monitor - það er nauðsynlegt að fylgjast vel með barninu á meðan það sefur og margir foreldrar nota hlustunartæki en samvæmt leiðbeiningum hlustunartækja eiga þau að vera eins langt frá barninu og hægt er, og helst rúmum meter frá höfði barnsins. Nánari upplýsingar hér.
Gangi þér vel
kveðja Kristín
Nánari upplýsingar um útisvefn hér
Comments