top of page

Snuð - kostir og gallar

Mörg börn nota einhverskonar huggara eins og bangsa, teppi eða snuð þegar þau fara að sofa. Það getur hjálpað þeim að róa sig niður. Stundum gerist það nokkuð sjálfkrafa að þau taka ástfóstri við einhvern hlut til að róa sig niður og sum sjúga þumal eða hendi.

Sumir foreldrar leggja mikið á sig til að barn vilji snuð, og það tekst ekki alltaf. Ef þú villt reyna að venja barnið þitt á snuð, þá getur verið gott ráð að bjóða snuðið þegar barninu líður vel og jafnvel að biðja heimsóknagesti að bjóða snuðið. Oft vilja þau ekki þyggja snuð t.d. þegar þau eru nýbúin að drekka eða þegar mjólkandi móðir býður snuð, því börn vilja jú yfirleitt það besta umfram allt annað og í þessu tilfelli er brjóstið líklega best í þeirra huga en ekki snuðið.

Það eru til ýmsar tegundir af snuðum og frá mörgum ólíkum framleiðendum. Svo virðist sem það sé ekkert eitt snuð sem sé "töfra snuðið" sem öll börn vilja. Við vitum að foreldrar leggja oft mikla fjármuni í að finna rétta snuðið fyrir barnið og oft tekst það ekki. En örvæntið ekki, börn geta sofnað og sofið án þess að nota snuð og margir foreldrar velja að bjóða börnum sínum aldrei snuð. Ef þú ert að reyna að venja barnið þitt á snuð, þá er ekki mælt með því að setja eitthvað á snuðið eins og sykur (var stundum gert í gamla daga). Haltur þig við 1-2 snuð sem líkjast laginu á geirvörtunni þinni eða pelatúttunni sem barnið sýgur. Og ekki gefast upp !


Algengustu tegundir snuða samkvæmt niðurstöðu könnunar svefnráðgjöf.is velja íslenskir foreldrar eftirfarandi tegundir af snuðum (birt í vinsældaröð); Bibs, Curaprox, Tommee tippee, Mam, fyrirburasnuð, Difrax, Chicco, Dr.brown, Avent.


Snuði fylgja ýmsir kostir og einnig ýmsir gallar. Hér kemur upptalning á nokkrum

Kostum snuðs

  • Að sjúga snuð getur róað órólegt barn. Mörgum ungbörnum líður best þegar þau eru að sjúga.

  • Hugardreifing - snuð getur dreift huga barnsins og getur verið gagnlegt við bólusetningar eða annan sársauka.

  • Snuð getur hjálpað börnum að sofna

  • Snuð getur hjálpað í flugtaki og lendingu við að losa hellu í eyrum.

  • Snuð getur hjálpað að koma í veg fyrir skyndidauða ungbarna eða vöggudauða (SIDS) en rannsóknir hafa sýnt að sjúga snuð í svefni getur dregið úr þeirri hættu.

  • Auðvelt að hætta snuðnotkun, þú einfaldlega lætur snuðið hverfa, annað en þumalinn ef barnið sýgur hann.

Ókostir snuðs

  • Barnið verður háð því að hafa snuðið upp í sér og grætur ef það missir snuðið og vaknar jafnvel líka um miðjar nætur eða í daglúr og þarf aðstoð frá þér að setja snuðið aftur í munninn.

  • Snuð getur aukið líkur á miðeyrnabólgu

  • Snuð getur haft áhrif á tennur - ef snuðnotkun dregst á langinn fram eftir aldri eru meiri líkur á því að tennur skekkist. Landlæknir mælir með að snuðnotkun sé hætt fyrir 3 ára aldur.

  • Getur haft neikvæð áhrif á brjóstgjöf - sérstaklega fyribura - þar sem sog á snuði getur verið orkukrefjandi fyrir smáa nýbura og þá hafa þau ekki orku að drekka.

  • Hreinlæti - það þarf að gæta vel að hreinlæti snuðs, þvo það reglulega með soðnu vatni eða mildri sápu. Forðast að setja snuð í munn annarra (aukin hætta á sýkingu). Lesið leiðbeingar með snuðum en fyrningartími snuða er oft 3 mánuðir.

  • Tútta á snuðum getur rifnað og valdið köfnun. Mikilvægt er að skoða túttu snuðs reglulega og henda snuði sem er orðið klístrað eða rifið.


Heimildir




232 views

Comments


bottom of page